Með hóflegri nýtingu hvalastofna má stækka nytjastofna ýsu, þorsks og loðnu umtalsvert. Þetta kemur fram í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða sem var kynnt nú í hádeginu og var unnin fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið.
Með veiðum á 150 langreyðum og jafn mörgum hrefnum má koma í veg fyrir aðrrán þessara stofna. Til lengri tíma litið mætti veiða 2.200 tonnum meira af þorski á ári hverjum 4.900 tonnum af ýsu og 13.800 tonnum af loðnu. Núvirtur hagnaður af þessum auka afla gæti verið 12.1 milljarður króna og jafnvel meiri.
„Það þarf að tryggja að hvalveiðar og hvalaskoðun geti lifað áfram í sátt og samlyndi og skilgreina verður betur hvar hvalaskoðunarsvæði eru,“ segir Sveinn Agnarsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar, sem telur þjóðhagslega hagkvæmt að halda hvalveiðum áfram. Það verði hins vegar að endurskoða reynist frekari veiðar hafa slæm áhrif á ferðaþjónustuna í landinu.