Stjórn Sorpu bs ákvað á fundi í morgun að fresta gjaldtöku vegna losunnar garðaúrgangs á endurvinnslustöðvum félagsins. Ákvörðunin er tekin vegna mikillar óánægju viðskiptavina sem meðal annars hafa kvartað yfir því að gjald sé tekið af losun lífræns úrgangs sem síðan er seldur aftur í formi moltu.
Ákvörðunin nú þýðir þó ekki að alfarið sé hætt við gjaldtöku heldur henni einungis slegið á frest. Að sögn Björns H. Halldórssonar framkvæmdastjóra Sorpu kvörtuðu viðskiptavinir einnig yfir því að gjaldtakan hafi veið illa kynnt.