Alvarlegum slysum fækkar á milli ára

mbl.is/Ómar

Á síðasta ári fækkaði alvarlegum slysum í umferðinni um 15% á milli ára, eða úr 200 árið 2008 í 170 árið 2009. Að sögn Umferðarstofu fellur þó sá skuggi á að 17 hafi látist í 15 slysum í umferðinni í fyrra. Árið 2008 hafi 12 látist í jafnmörgum slysum. 

Þetta sé þó langt undir meðaltali þess fjölda sem látist hafi í umferðarslysum á Íslandi undanfarin tíu ár en það séu að jafnaði 22 einstaklingar á ári. Á síðustu þremur árum hafi að meðaltali tæplega 15 látist í umferðarslysum á landinu, en næstu þrjú ár á undan hafi rúmlega 24 látist ár hvert.

Þetta er á meðal niðurstaðna samantektar slysaskráningar Umferðarstofu á umferðarslysum árið 2009. Slysaskráning Umferðarstofu byggist á lögregluskýrslum úr gagnagrunni Ríkislögreglustjóra. Í  einhverjum tilfellum rata umferðaróhöpp ekki í gagnagrunninn heldur beint á borð tryggingafélaga, en það á yfirleitt við í tilfellum þar sem ekki er um slys á fólki að ræða.

35% fækkun slysa á Suðurnesjum

Í fréttabréfi Umferðarstofu kemur fram að þegar landshlutarnir séu skoðaðir komi í ljós að mest fækki slösuðum á Suðurnesjum, eða um 35% milli áranna 2008 og 2009. Á Vestfjörðum fækki þeim hlutfallslega um 32% og á Suðurlandi um 24%. Á höfuðborgarsvæðinu fækki slösuðum um 23%. Á Norðurlandi vestra fjölgi slösuðum hins vegar um 19% og á Austurlandi um 13%.

Ekki sé enn ljóst hvað valdi þessari aukningu á Norðurlandi vestra og Austurlandi en tilgangur skýrslunnar sé m.a. sá að greina þau atriði í umferðaröryggismálum sem krefjast frekari athugunar og aðgerða.

Á höfuðborgarsvæðinu er vitanlega mest umferð og flest umferðarslys og óhöpp verða á því svæði. Það er því ánægjulegt að sjá þann mikla árangur sem náðst hefur á höfuðborgarsvæðinu. Þegar skoðaður er fjöldi slasaðra og látinna árið 2009  m.v. 100 þúsund íbúa og sá fjöldi borin saman við 10 ára meðaltal kemur í ljós 26% fækkun. Fjöldinn var í fyrra 2,8 en meðaltalið er 3,8. Á landinu öllu nemur þessi fækkun 18%. Það er því ljóst að þessi mikla fækkun á höfuðborgarsvæðinu vegur þungt í þeim árangri sem náðst hefur.

Árið 2009 var samanlagður fjöldi þeirra sem létust og slösuðust bæði alvarlega og lítilsháttar á höfuðborgarsvæðinu komin niður í 564 manns úr 730 árið áður. Þessi fækkun nemur tæpum 23% milli ára.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert