Reyndi að fá samfanga sinn í vændi

32 ára gömul kona, sem hefur verið í gæsluvarðhaldi frá því í desember vegna gruns um mansal og vændi, reyndi í janúar að fá samfanga sinn, unga konu, til að starfa fyrir sig sem vændiskona fyrir 500.000 krónur á mánuði þegar hún væri laus úr fangelsi.

Konan, sem heitir Catalina Mikue Ncogo, var 1. desember dæmd í 2½ árs fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness fyrir innflutning fíkniefna og hagnýtingu vændis. Konan hefur áfrýjað þeim dómi til Hæstaréttar. Tveimur dögum síðar var konan handtekin vegna gruns um mansal og hagnýtingu vændis en lögreglan taldi sig hafa rökstuddan grun um að Catalina flytti stúlkur til landsins, gerði þær út til vændis og tæki a.m.k. helming hagnaðarins af þeim. 

Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um að Catalina sæti áfram gæsluvarðhaldi til 23. apríl en hún hefur nú verið ákærð fyrir vændisstarfsemi og mansal.

Vændið helsta tekjulindin 

Fram kemur í úrskurði héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti, að við rannsókn málsins hafi konur borið um að hafa stundað vændi hér á landi á vegum Catalinu og að þær hafi komið til landsins í því skyni að starfa við vændi á vegum hennar. Konunum beri saman um að Catalina hafi verið umráðamanneskja þess húsnæðis þar sem þær dvöldu og vændið var stundað. Hún hafi haft alla milligöngu við þá sem keyptu vændisþjónustuna og tekið við greiðslu og haldið eftir verulegum hluta þess sem greitt var.

Þá bendi vitnisburðir einnig til þess að Catalina hafi gerst sek um mansal gagnvart sumum þeirra kvenna sem um ræði, með því að beita ótilhlýðilegri aðferð, ofbeldi, hótunum um ofbeldi og frelsissviptingu.  

Fjármál Catalinu hafa verið til skoðunar hjá lögreglunni og framburðir brotaþola og vitna, símagögn og önnur gögn hafi leitt í ljós að helsta tekjulind  hennar hafi verið þessi brotastarfsemi.

Reyndi að fá samfanga í vændi

Þá kemur fram, að í byrjun janúar hafi lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu  borist upplýsingar um að Catalina hafi boðið samfanga sínum, ungri konu, að starfa fyrir sig sem vændiskona fyrir 500.000 krónur á mánuði þegar hún væri laus úr fangelsi. Lögreglan yfirheyrði konuna og hún staðfesti þetta auk þess sem tekin var skýrsla af öðrum fanga sem var  vitni að samtalinu. 

Ríkissaksóknari gaf í febrúar út ákæru á hendur Catalinu vegna mansals, hagnýtingar vændis, hótana, frelsissviptingar, ólögmætrar nauðungar, líkamsárásar og brots gegn valdstjórninni.

Ríkissaksóknari telur ljóst að Catalina hafi ekki látið af brotastarfsemi sinni þrátt fyrir að hafa sætt lögreglurannsóknum, gæsluvarðhaldi og verið ákærð og dæmd fyrir sambærileg brot. Þá segist ríkissaksóknari líta það alvarlegum augum að þrátt fyrir að Catalina sæti nú gæsluvarðhaldi vegna gruns um mansal og hagnýtingu vændis leitist hún enn á ný við að fá konur til að starfa fyrir sig í vændi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert