Tveir meintir gaskútaræningjar voru gómaðir í morgun við eyðibýli við veginn um Þverárfjall. Lögreglumaður á frívakt ákvað að kanna hvers vegna bíllinn var við bæinn og kom þá að mönnunum sofandi í bílnum innan um tíu glænýja 5 kg gaskúta.
Lögreglumaður frá Blönduósi átti leið til Sauðárkróks um kl. 7.30 í morgun. Þá sá hann bíl sem var lagt við eyðibýlið. Þegar hann kom til baka sömu leið um tíuleytið var bíllinn enn á sama stað.
Honum þótti mannaferðirnar grunsamlegar svo hann stoppaði og gekk að bílnum. Þá kom í ljós að í bílnum voru tveir sofandi menn. Þegar kannað var hvaða menn höfðu sofið þarna værum svefni kom í ljós að þeir eru góðkunningjar lögreglunnar af höfuðborgarsvæðinu. Mennirnir sem eru um tvítugt hafa verið bendlaðir við ýmis þjófnaðar- og innbrotsmál upp á síðkastið.
Lögreglumaðurinn lét kollega sína á Sauðárkróki vita og komu þeir á vettvang. Þá kom í ljós að í bílnum voru tíu glænýir 5 kg gaskútar úr plasti eins og notaðir eru við gasgrill. Kútarnir voru allir tómir. Nokkuð er um að slíkum kútum sé stolið því fyrir þá fæst gott skilagjald.
Lögreglunni hefur ekki enn tekist að rekja hvaðan kútarnir eru komnir. Þeir sem sakna slíkra kúta geta haft samband við lögregluna á Blönduósi.
Gaskútarnir voru teknir af mönnunum en þeir gátu ekki gert grein fyrir þeim með trúverðugum hætti. Mennirnir voru í yfirheyrslum á Blönduósi í dag en málið var unnið í samvinnu við lögregluna á Sauðárkróki.
Stálu töng í Borgarnesi til að skila henni á Akranesi
Mennirnir fengu að halda ferð sinni áfram síðdegis. Þeir komu við í bensínafgreiðslu Olís í Borgarnesi og stálu þar töng áður en þeir héldu för sinni áfram. Svo komu þeir við í Olis-stöðinni á Akranesi og ætluðu þar að skila tönginni og fá hana endurgreidda!
Þá var búið að vara við þessum pörupiltum og voru þeir teknir á Akranesi. Þeim var svo sleppt eftir stutta yfirheyrslu.
Gaskútana bar á góma við lögregluna á Akranesi. Þar sagði annar mannanna að maður hafi ætlað að henda kútunum í Sorpu og þeir fengið að hirða þá! Það þótti víst ekki mjög trúlegt.