Setja á upp girðingu til að bægja fólki frá hættulegri nálægð við hraunstrauminn á Fimmvörðuhálsi. Þeim sem eru þar við gæslu óar við því hvað margir fara óvarlega og óttast að slys geti orðið verði ekkert að gert.
Björgunarsveitir hafa aðstoðað 15-20 lúna og kalda göngumenn á Fimmvörðuhálsi síðdegis og í kvöld. Svanur Sævar Lárusson, formaður Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu, sagði að göngufólkið hafi flest verið á leið niður þegar það þáði far. Það hafði ekki gert sér grein fyrir því hvað gangan er krefjandi og aðstæður erfiðar.
„Það er alveg hrikalega kalt,“ sagði Svanur. „Það er ekki undir 15 gráðu frosti þarna uppi. Maður finnur strax þegar maður er berhentur að maður tekur ekki meira en tvær myndir í einu. Frostið bítur rosalega.“
Svanur sagði að sér þætti fólk fara mjög glannalega í nánd við hraunið sem er að brjótast fram. Honum þótti „skuggalegt“ hvað margir fara nærri því. Þessir ofurhugar eru þó ekki að orna sér heldur að taka ljósmyndir. Vilja helst vera alveg ofan í glóðinni.
Gerðar verða ráðstafanir til að halda fólki frá hrauninu, því ljóst þykir að framferði margra er stórhættulegt. Búið er að panta girðingu úr Reykjavík og á að reyna að nota hana til að halda fólki frá hættulegri nálægð við hraunstrauminn.
„Hraunið er að renna undir snjóinn og svo hrynur niður þar sem fólk er nýbúið að standa,“ sagði Svanur. Hann sagði líka ógnvænlegt að sjá hvað margir fara tæpt á brúninni á Hrunagili. Þar fari það jafnvel fram á snjóhengur sem geti brostið hvenær sem er.
Fólk getur nú gengið í átt að gosstöðvunum frá Þórsmörk. Þeim tilmælum hefur verið beint til fólks að það fari ekki lengra en upp á Morinsheiði. Svanur sagði að í kvöld hafi verið brögð að því að menn hafi ekki virt þessi tilmæli heldur gengið upp Heljarkamb til að komast svolítið nær eldstöðinni.
Á þeirri leið þarf að ganga upp snjóbrekku sem getur mögulega brostið og skriðið fram. „Fólk virðist vera tilbúið að leggja sig í lífshættu til að komast kannski örlítið nær,“ sagði Svanur.
Flugbjörgunarsveitin á Hellu flutti almannavarnanefnd Rangárþings og Vestur-Skaftafellssýslu í vettvangsferð að eldstöðvunum í dag og var verið að flytja hana af fjallinu í kvöld. Aðrar sveitir voru einnig á svæðinu við gæslu og aðstoð.