Ísland kann að skorta stuðning

Dominique Strauss-Kahn.
Dominique Strauss-Kahn. Reuters

Framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins segir að hugsanlega sé ekki nægur stuðningur innan stjórnar sjóðsins við að efnahagsáætlun Íslands hjá sjóðnum verði endurskoðuð en það er skilyrði fyrir því að Ísland fái frekari lánafyrirgreiðslu. 

„Við þurfum meirihluta (í stjórninni). Ef það er enginn meirihluti þá fer engin endurskoðun fram," sagði Strauss-Kahn við fréttaveituna Bloomberg í morgun. „Ef það er meirihluti þá getum við haldið áfram.  Ég tel sjálfur að það væri gott að geta haldið málinu áfram nú. En ég veit ekki hvort meirihluti er fyrir því."   

Bloomberg segir að Strauss-Kahn hafi látið þessi ummæli falla í viðtali um borð í flugvél frá Varsjá til Búkarest í morgun og vísað til deilna  Íslendinga við Breta og Hollendinga um innistæðutryggingar. 

„Ég hef alltaf sagt, að Icesave sé ekki skilyrði af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en við þurfum að hafa meirihluta í stjórn sjóðsins," hefur Bloomberg eftir Strauss- Kahn.  „Ef Icesave-deilan er leyst er ég viss um að slíkur meirihluti fyrir hendi. Ef Icesave-deilan er ekki fullkomlega leyst veit ég ekki hvort það er meirihluti í stjórninni."  

Strauss-Kahn sagðist ætla að ræða við stjórnarmenn sjóðsins og kanna afstöðu þeirra til málsins þegar hann snýr aftur til Washington en hann hefur verið á ferð um austurhluta Evrópu síðustu daga. 

Upphaflega stóð til að endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands færi fram í janúar en hún hefur frestast vegna Icesave-deilunnar. Íslensk stjórnvöld hafa farið fram á það við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að endurskoðunin fari fram eins fljótt og unnt er og Mark Flanagan, sem fer með málefni Íslands hjá sjóðnum, sagði í gær að Strauss-Kahn hefði falið starfsfólki sjóðsins að vinna  að vinna að því með íslenskum stjórnvöldum að ljúka annarri endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands sem fyrst.

Þeir Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra og Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, áttu fund með Strauss-Kahn í Washington á föstudag. Eftir fundinn sagði Gylfi við mbl.is að hann væri ágætlega bjartsýnn á að það takist að þoka efnahagsáætluninni áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka