Margir komnir í Þórsmörk

Margir eru komnir á leið upp Morinsheiði að eldstöðvunum.
Margir eru komnir á leið upp Morinsheiði að eldstöðvunum. RAX / Ragnar Axelsson

Lögregla og björgunarsveitarmenn standa nú vaktina í Þórsmörk. Þeir verða við skálana og munu einnig gæta þess að ferðamenn fari ekki  inn í Hrunagil eða Hvannárgil. Skálaverðir verða í Húsadal, Langadal og í Básum og boðið verður upp á ferðir að gosstöðvunum. Margir eru nú að ganga á Morinsheiði.

Lögreglan á Hvolsvelli segir að einungis sé fært fyrir breytta jeppa eða stóra bíla inn í Þórsmörk. Helst þurfi jepparnir að vera á 38" dekkjum eða stærri. Leiðin er mjög stórgrýtt á köflum. Að sögn lögreglunnar áttu lögreglumenn í nokkru basli með að komast leiðar sinnar á 35" breyttum jeppa.

Nú þegar eru margir á göngu upp á Morinsheiði í átt að gosstöðvunum, að sögn Helgu Garðarsdóttur, skálavarðar í skála Ferðafélags Íslands í Langadal. Nokkrir bílar, sex eða sjö. biðu við vegartálmann þegar opnað var inn í Þórsmörk um hádegið.

Skálaverðir eru í farfuglaheimilinu í Húsadal og hjá FÍ í Langadal. Þar geta ferðamenn fengið leiðsögn og ráðgjöf og leitað gistingar. Verslunin í Langadal  verður einnig opin. Ferðafélagið mun einnig bjóða leiðsögn að gosstöðvunum.

Góð sýn er yfir gosstöðvarnar af Valahnjúk sem er í þægilegu göngufæri úr Húsadal og Langadal.

Skálaverðir og fararstjórar eru komnir í skála Útivistar í Básum og verða þar alla páskana og taka á móti gestum og gangandi. Fararstjórar fara í reglubundnar ferðir alla dagana upp að gosstöðvunum og byrjuðu skoðunarferðirnar á morgun. 

Öll umferð fólks um Hrunagil og Hvannárgil, þar sem hraun er að renna, er bönnuð. Það er vegna hættu á eitruðu gasi sem þar kann að safnast fyrir og vegna hættu á gufusprengingum.  Vísindastofnanir hafa bannað sínu fólki að fara inn í gilin vegna þessarar hættu, að sögn Almannavarna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert