Samkeppniseftirlitið er með um 15 mál til meðferðar sem varða yfirtöku banka á fyrirtækjum. Áhöld eru um hvort afkoma allra þessara fyrirtækja sé jákvæð, og er þá miðað við sjóðsstreymi, en verklagsreglur bankanna setja slíkt sem skilyrði fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu.
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir þess ekki langt að bíða að niðurstaða fáist í þessum málum. Í þeim væri fjallað um þá fresti sem bankarnir hafa til að selja fyrirtæki sem þeir hafa yfirtekið og einnig um aðskilnað hagsmuna. „Þessir hagsmunir geta blandast saman með mjög óæskilegum hætti þegar bankar fara að reka fyrirtæki samhliða hefðbundinni bankaþjónustu.“
Fram hafa komið áhyggjur af því að bankarnir reki þessi fyrirtæki of lengi. Viðskiptanefnd Alþingis hefur rætt þessi mál. Áhyggjur eru innan nefndarinnar vegna starfa nefndar sem hefur eftirlit með afskriftum bankanna. Samkvæmt lögum má nefndin aðeins lýsa því með almennum orðum ef grunur leikur á um að ekki sé farið eftir verklagsreglum bankanna. Hún má ekki upplýsa nákvæmlega í hverju brotið felst.
Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður ætlar á næstunni að leggja fram frumvarp á Alþingi sem kveður á um að fyrirtæki í eigu bankanna verði að skila sömu upplýsingum og fyrirtæki sem skráð eru í Kauphöllinni, en það þýðir m.a. að þau skili uppgjöri ársfjórðungslega.
Sjá nánar ítarlega umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag.