Fréttaskýring: Staðgöngumæðrun áfram til umræðu

Ásdís Ásgeirsdóttir

Fyrir helgi stóð heilbrigðisráðuneytið fyrir opnum fundi um staðgöngumæðrun þar sem átta framsögumenn ræddu þetta umdeilda mál frá ýmsum hliðum.

Reynir Tómas Geirsson, prófessor og yfirlæknir á kvennasviði Landspítalans, sagðist í erindi sínu telja rétt að heimila staðgöngumæðrun þröngt – þ.e. þannig að það yrði leyft fyrir afmarkaðan hóp kvenna – en mögulega útvíkka heimildina síðar út ef úrræðið mæltist vel fyrir.

Undir það tók Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sem lengi hefur barist fyrir að taka málið til umræðu. Bestu rökin fyrir því að leyfa staðgöngumæðrun eru að úrræðið sé leyfilegt víða annars staðar, sagði hún. Stjórnvöld gætu ekki spornað við því að Íslendingar nýttu sér úrræðið erlendis, og því væri betra að leiða úrræðið í lög og setja því ramma sem tæki mið af viðhorfum okkar og samfélagi.

Bæði nefndu þau að áður hefði tekist að leiða umræðu um viðkvæm mál til lykta. Benti Ragnheiður auk þess á að viðhorfsbreyting fylgdi of í kjölfar vandaðrar lagabreytingar.

Framsögumenn voru allir sammála um að ef leyfa ætti staðgöngumæðrun á annað borð væri mikilvægt að takmarka heimildina við staðgöngumæðrun sem velgjörð. Enda geri staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni líkama kvenna og börn að markaðsvöru.

Staðgöngumæðrun sem velgjörð væri þó síður en svo vandalaus. Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands, benti í fyrirlestri sínum á að hér áður fyrr voru dæmi um að fátækar konur létu barnlausum systrum sínum eftir börn sín – jafnvel að kröfu hinna barnlausu. Sambærilegur þrýstingur væri vel þekktur varðandi líffæragjafir, benti Salvör á, og velti upp þeirri spurningu hvort hætta væri á að lögleiðing staðgöngu sem velgjörðar gæti orðið til að skapa óeðlilegan þrýsting á nána ættingja þeirra sem vildu nýta sér úrræðið.

Gæta þarf velferðar barna

Guðný Gústafsdóttir, kynjafræðingur og talskona Femínistafélags Íslands, tók undir með Salvöru, og spurði hvort því fé sem varið væri til staðgöngumæðrunar, tæknifrjóvgana o.s.frv. væri í ljósi velferðar barna í alþjóðlegu samhengi ekki betur varið til ættleiðinga.

Þá benti Sólveig Anna Bóasdóttir, dósent í guðfræðilegri siðfræði, á að hugsanlega væri hægt að útfæra önnur úrræði en staðgöngumæðrun til að bregðast við vanda þess litla hóps sem um ræddi.

Niðurstöðu að vænta

Enn er að störfum vinnuhópur um staðgöngumæðrun, sem skipaður var í janúar 2009 af þáverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugi Þór Þórðarsyni. Í síðasta mánuði skilaði hópurinn áfangaskýrslu eins og sagt hefur verið frá í Morgunblaðinu. Fram kom í máli Guðríðar Þorsteinsdóttur, sem er sviðsstjóri lagasviðs heilbrigðisráðuneytisins og formaður vinnuhóps um staðgöngumæðrun, að stefnt væri að því að vinnuhópurinn skilaði innan skamms niðurstöðu í málinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert