Telja líklegt að Icesave-samningar náist

Alþjóðlega matsfyrirtækið Standard & Poor's segist telja líklegt, að samningaviðræður um Icesave muni halda áfram eftir kosningar í
Bretlandi og Hollandi, og líklegt er að samkomulag sem hugnast báðum aðilum muni nást síðar á þessu ári.

„Við teljum að enginn samningsaðila vilji að samningar mistakist. Hins vegar getur skortur á fyrirfram ákveðnum tímaramma dregið viðræður á langinn og gert það að verkum að gjaldeyrishöft verða við lýði á meðan. Aflétting haftanna án tryggðrar erlendrar fjármögnunar getur leitt til þrýstings til veikingar krónunnar, sem gæti haft í för með sér ný vandamál í fjármálageiranum. Ástæðan er erfið skuldastaða þjóðarinnar, meðal annars í erlendum gjaldmiðlum," segir í tilkynningu S&P þar sem tilkynnt var að lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins fyrir erlendar skuldbindingar yrði óbreytt en einkunn fyrir innlendar skuldbindingar yrði lækkuð um einn flokk.

S&P lýsir þeirri skoðun, að ríkisstjórnin sé líkleg til að starfa það sem eftir er ársins sem dragi úr líkum á pólitísku tómarúmi. Viðskiptajöfnuður hafi snúist í afgang og gjaldmiðillinn styrkst um 4% gagnvart evru frá því í byrjun janúar. Að auki hafi Seðlabankinn lækkað stýrivexti sína tvisvar á þessu ári og gjaldeyrisforðinn haldist nokkuð stöðugur.

„Við teljum að stjórnvöld muni nú kjósa að halda gjaldeyrishöftunum lengur en áformað var við upptöku þeirra fyrst eftir að íslenska bankakerfið hrundi seint á árinu 2008. Með því móti er hægt að verja  erlenda lausafjárstöðu sem myndi annars eiga undir högg að sækja vegna líklegra tafa á framtíðargreiðslum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og norrænum ríkisstjórnum. Þrátt fyrir það teljum við enn að árangursrík önnur endurskoðun geti átt sér stað á næstu mánuðum. Hvað sem því líður verða gjaldeyrishöft ekki langtímalausn á veikri erlendri lausafjárstöðu Íslands. Líklegt er að þau muni standa í vegi fyrir fjárfestingarmöguleikum sem við teljum að séu afar mikilvægir fyrir efnahagsbata. Þrátt fyrir það sjáum við að landsframleiðsla dróst minna saman á síðasta ári en við áttum von á, eða um 6,5%, og líklegt er að stöðugleiki náist í efnahag landsins á árinu 2010," segir Standard & Poor's.

Tilkynning S&P

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert