Á níunda tug þingskjala voru lögð fram á Alþingi á sérstökum útbýtingarfundi síðdegis. Flest eru þingskjölin stjórnarfrumvörp en einnig eru tugir þingmannafrumvarpa og fyrirspurna.
Í dag var síðasti dagur til að dreifa frumvörpum á yfirstandandi vorþingi. Eftir páskafrí hefst þinghald 12. apríl en þá verður lögð fram skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis. Að sögn Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, forseta þingsins, hefur ekki verið tekinn frá ákveðinn fjöldi daga til að fjalla um skýrsluna. „Gert er ráð fyrir að skýrslan verði rædd en það er erfitt að gera nákvæma dagskrá því við vitum ekki hvað er í henni.“
Viku hlé verður gert á störfum þingsins vegna sveitarstjórnarkosninga sem fara fram hinn 29. maí. Þing kemur aftur saman 31. maí en samkvæmt starfsáætlun lýkur störfum þingsins 4. júní. Að sögn Ástu Ragnheiðar er þó mögulegt að dagskráin lengist um örfáa daga.