Fólk fær að fara úr Básum

Eldgosið rétt fyrir kl. 2100 í kvöld. Myndin var tekin …
Eldgosið rétt fyrir kl. 2100 í kvöld. Myndin var tekin úr flugvél sem flaug í um 8.000 feta (2.400 m) hæð. mbl.is/Þorleifur E. Pétursson

Ákveðið hef­ur verið að leyfa fólki sem vill að fara úr Bás­um í Þórs­mörk í nótt. Sér­bún­ir björg­un­ar­sveita­bíl­ar verða við Hvanná og lýsa upp gilið og fylgj­ast með vatna­vöxt­um í ánni, að sögn Víðis Reyn­is­son­ar hjá al­manna­varna­deild rík­is­lög­reglu­stjóra. 

Ekk­ert flóð er í ánni en þessi varúðarráðstöf­un er gerð ef það kem­ur hlaup í ána. Þeir sem vilja fá að fara heim á sín­um eig­in bíl­um. Marg­ir höfðu ráðgert að gista í Bás­um í nótt og fá að vera þar ef þeir vilja.

Marg­ir voru í Bás­um, skála Útivist­ar í Þórs­mörk, í kvöld. Fólki var meinað að aka út úr Þórs­mörk vegna óvissu með Hvanná sem hafði vaxið. Það fékk því gist­ingu í Bás­um. At­huga átti hvort veg­ur­inn yrði  opnaður í fyrra­málið, en það hef­ur nú breyst eins og fyrr seg­ir.

Mik­ill at­gang­ur á gosstöðvun­um

„Það var eins og maður væri kom­inn í stríðið í Viet Nam þarna uppi á Mor­ins­heiði. Þar voru allt að fjór­ar þyrl­ur í einu, Land­helg­is­gæsluþyrl­an og þrjár aðrar,“ sagði Krist­inn Garðars­son, land­fræðing­ur og korta­gerðarmaður, sem varð vitni að því þegar ný gossprunga opnaðist á Fimm­vörðuhálsi í kvöld.

Krist­inn hafði ætlað sér að aka til Reykja­vík­ur í kvöld en fékk fyr­ir­mæli um að halda kyrru fyr­ir.

Krist­inn sagði að hann og föru­neyti hans hafi tekið með sér svefn­poka og nóg nesti. Þau voru því ekki á flæðiskeri stödd. Hann taldi að á annað hundrað manns væri komið í Bása og fólk var enn að tín­ast niður af fjall­inu um kl. 22.40. Hann sagði að stemmn­ing­in væri fín.

„Það var spurt hvort ein­hver væri með gít­ar! Það er bara fín stemmn­ing,“ sagði Krist­inn. Hann er Vest­manna­ey­ing­ur og varð vitni að Heima­eyj­argos­inu út um svefn­her­berg­is­glugg­ann heima hjá sér í janú­ar 1973. Gosið þá var í nokk­urra hundraða metra fjar­lægð.

„Þetta var svo­lítið nær í dag,“ sagði Krist­inn en hann var um 200 metra frá nýju gossprung­unni þar sem hann stóð á Bröttuf­ann­ar­felli. Hann sagði að fólk hafi ekki verið ótta­slegið við gosstöðina.

„Mér fannst fólk ekki al­veg skynja að það gæti verið af þessu hætta,“ sagði Krist­inn. Hann kom að þegar sprung­an var að opn­ast. Menn sem voru á staðnum sögðu að sprung­an hafi rétt áður byrjað að opn­ast. Hann sagði að fyrst hafi líkt og sull­ast upp úr jörðinni þar sem sprung­an opnaðist.

„Á meðan við stóðum þarna þá jókst þetta heil­mikið. Maður sá hraunið hrúg­ast upp og það myndaðist pínu­lít­ill gíg­ur. Svo hélt þetta áfram í norðvest­ur að mér fannst. Gosið var mest næst hinum gígn­um. Það var tölu­vert hraun­streymi úr þessu. Á nyrðri end­an­um sullaðist upp eins og það kæmi und­an snjón­um. Þetta var alltaf aðeins að lengj­ast,“ sagði Krist­inn.

Mik­il gufa steig upp frá nyrðri enda gossprung­unn­ar og var erfitt að greina hvað var að ger­ast á þeim enda. Tölu­verð læti voru í gos­inu og juk­ust þau eft­ir því sem á leið. Krist­inn sagði að gosið hafi verið að aukast þegar þau fóru niður.

„Þar sem ég stend núna, hér niður í Bás­um, er him­in­inn log­andi rauður þarna upp­frá,“ sagði Krist­inn. 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert