Gagnaveri í gámi var lagt fyrir framan stjórnarráðið í dag og voru ráðherrar og embættismenn hvattir til að kynna sér starfsemi þess. Þeir létu hins vegar ekki sjá sig.
Það er íslenska
fyrirtækið Thor Data Center, sem stóð fyrir uppátækinu en fyrirtækið segir í tilkynningu, að það sé íslenskt, fjármagnað af innlendum og erlendum aðilum, til húsa við Steinhellu í Hafnarfirði. Búnaðurinn fyrir gagnaverið kemur til landsins í sérhönnuðum eldvörðum gámum og var fyrsti gámurinn afhentur í dag.
Forsvarsmenn þess segja í tilkynningu að gagnavarsla geti orðið ein tekjumesta atvinnugrein þjóðarinnar. Tekjur af um 80 gagnaversgámum gætu numið um 115 milljörðum kr. í tekjur.
Gagnaverið nýtir kuldann á Íslandi til að kæla búnaðinn og segir það vera nýja tækni sem hafi verið þróuð í samstarfi við evrópska aðila. Gagnamagnið, sem einn svona gámur getur geymt, er um 6,2 petabæt, sem jafngildi um 6.200.000 gígabætum.