Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra, hefur gefið út reglugerð um stjórn makrílveiða íslenskra skipa á þessu ári. Kveður reglugerðin á um, að miðað verði við að ráðherra geti stöðvað makrílveiðar, þegar náð hefur verið 130 þúsund lesta afla.
Stærstum hluta aflaheimildanna, 112 þúsund lestum er ráðstafað til skipa sem stunduðu makrílveiðar undanfarin þrjú ár. Önnur skip geta sótt um leyfi til þessara veiða og verða 15 þúsund tonn veitt til þeirra. Þá verður þrjú þúsund tonnum úthlutað til skipa sem ætla að veiða á línu, handfæri, í net eða gildrur.
Þá kemur fram í tilkynningu frá sjávarútvegsráðuneytinu, að Jón Bjarnason leggi mikla áherslu á að auka þann hluta makrílaflans, sem unninn er til manneldis, enda sé það í samræmi við stefnu stjórnvalda og alþjóðleg sjónarmið um sjálfbærni. Hann hyggst því einnig nýta nýja heimild í lögum um stjórn fiskveiða til að kveða á um vinnsluskyldu á tilteknu hlutfalli makrílaflans.
Ráðuneytið tekur fram, að ekki hafi náðst samkomulag við önnur strandríki um fyrirkomulag eða leyfilegt heildarmagn makrílveiða og verði því leyfi til veiða á makríl einungis gefin út fyrir yfirstandandi ár.
Áhersla er lögð á að ekki megi reikna með að veiðarnar í ár skapi grunn að veiðirétti í framtíðinni eða að framtíðarfyrirkomulagi veiða að öðru leyti. Fylgst verði vandlega með veiðum og vinnslu á makríl á komandi vertíð og reynslan lögð til grundvallar reglusetningu um þær á næstu árum.
Allar veiðar á makríl í fiskveiðilandhelgi Íslands og á samningssvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) verða háðar leyfum. Ekki er verið að úthluta varanlegum heimildum til fleiri ára. Framsal verður óheimilt en tilflutningur milli skipa innan sömu útgerðar verður heimill.