„Það er búið að loka fyrir umferð inn í Þórsmörk og það eru flestir farnir út úr mörkinni sem ekki vildu vera hér lengur. Ég á von á því að það verði hérna 20-25 manns sem vilji vera hér áfram,“ segir Óli Þór Hilmarsson, fararstjóri hjá Útivist, um stöðuna í Básum í Þórsmörk.
Að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli er lokað fyrir aðgang að gosstöðvunum um Sólheimajökul auk þess sem gönguleiðin að Fimmvörðuhálsi um Skóga er lokuð.
Þá eru ár inn í Fljótsdal, Þórólfsá og Gilsá, illfærar vegna krapa og segir lögreglan ökumenn smærri jeppa hafa átt erfitt með að fara yfir þær.
Lögreglan segir rólegt um að litast á Hvolsvelli en hún kveðst vænta þess að fólkið sem kom að sjá gosið í gær, þriðjudag, sé farið til síns heima.
Lögreglan hyggst vera með sama viðbúnað í dag, Skírdag. Hins vegar viti enginn hvað framhaldið verður, enda allt óvissu háð.
Áfram verði lokað fyrir umferð inn á svæðið.