Ísland uppfyllir skilyrði AGS

Höfuðstöðvar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington.
Höfuðstöðvar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington.

Talsmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins segir, að frumathugun starfsmanna sjóðsins sýni, að Ísland hafi uppfyllt þau skilyrði, sem sett voru svo hægt væri að ljúka annarri endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands hjá sjóðnum. Talsmaðurinn sagði, að framkvæmdastjóri sjóðsins hefði falið starfsmönnum að hraða endurskoðuninni í samræmi við óskir íslenskra stjórnvalda.

Gerry Brice, talsmaður AGS, sagði á blaðamannafundi í Washington í dag, Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri sjóðsins, hefði fengið óskir frá íslenskum stjórnvöldum um að ljúka annarri endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands. Sú endurskoðun er forsenda þess, að Ísland fái frekari lánafyrirgreiðslu af hálfu sjóðsins og Norðurlandanna.

Sagði Brice, eins og raunar hefur komið fram áður, að Strauss-Kahn hafi falið starfsfólki sjóðsins að flýta vinnu við endurskoðunina svo framkvæmdastjórn AGS geti fjallað um hana. 

Brice sagði, að stjórnin verði að meta hvort efnahagsáætlunin gangi fram eins og til er ætlast og hægt sé að fjármagna hana. Það sé mat starfsmanna AGS, að Ísland hafi uppfyllt þessi skilyrði.

Hann sagði að reiknað væri með því að búist væri við því að endurskoðunin færi fram „á næstunni" en vildi hvorki nefna hvenær reiknað væri með því að stjórnin fjallaði um Ísland eða hvort AGS myndi senda sendinefnd til Íslands á næstu dögum. 

AFP fréttastofan segir, að stjórn AGS, þar sem Bretar og Hollendingar eiga fulltrúa, hafi neitað að setja endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands á dagskrá og er það rakið til þess að Icesave-deilan svonefnda er enn óleyst. 

Strauss-Kahn sagði við Bloomberg fréttastofuna í vikunni, að það þurfi að vera meirihluti í stjórn sjóðsins svo hægt væri að þoka málum Íslands áfram. „Ég hef alltaf sagt, að Icesave sé ekki skilyrði af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en við þurfum að hafa meirihluta í stjórn sjóðsins," hafði Bloomberg eftir Strauss- Kahn.  „Ef Icesave-deilan er leyst er ég viss um að slíkur meirihluti fyrir hendi. Ef Icesave-deilan er ekki fullkomlega leyst veit ég ekki hvort það er meirihluti í stjórninni." 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert