Keppt í kattasmölun í dag

Kattavinafélagið og Kattaræktarfélag Íslands, Kynjakettir, efna í dag kl. 11 til fjölskylduskemmtunar í sýningaraðstöðu Kynjakatta að Miðhrauni 2 í Hafnarfirði, þar sem áður var verslunin Just 4 Kids. Þar verður keppt í kattasmölun og tveir þingmenn VG munu byrja, þau Ögmundur Jónasson og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, sem til þessa hafa tilheyrt „órólegu deildinni“ innan VG.

Kattholt mun leggja til ketti í smölunina en svæði á sýningargólfinu verður girt af fyrir keppnina. Þeim sem tekst að smala köttunum inn í afmarkað hólf á sem skemmstum tíma fara með sigur af hólmi. Vegleg verðlaun verða í boði. Aðgangur að skemmtuninni er ókeypis en hins vegar geta áhorfendur heitið á keppendur og mun allur ágóði renna óskiptur til starfseminnar í Kattholti.


Að sögn Sigríðar Heiðberg, formanns Kattavinafélagsins, og Marteins Tausen, formanns Kynjakatta, var megintilefni þessarar skemmtunar þau ummæli Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra um síðustu helgi að það að smala saman meirihluta á Alþingi væri eins og að smala köttum.
„Við teljum að það sé vel hægt að smala köttum saman og sjálfsagt að gefa fólki færi á því, um leið og það getur styrkt gott málefni í leiðinni,“ sagði Sigríður við Morgunblaðið er hún gaf þingmönnunum, sem ætla að hefja leikinn í dag, góð ráð við smölunina í Kattholti í gær.

Nánar er fjallað um keppnina í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert