Geir Gunnlaugsson, landlæknir, lítur deilu almennra lækna og stjórnenda Landspítalans alvarlegum augum. Þetta kom fram í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins. Þar kom fram að hann hafi haft samband við deiluaðila og óskað eftir því að lausn verði fundin á málinu eins fljótt og hægt er.
Sagði hann báða deiluaðila gera sér fulla grein fyrir ábyrgð sinni. Tók hann fram að hann treysti yfirstjórn spítalans til þess að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar væru vegna fjarveru almennra lækna.
„Samtímis treysti ég á það að ungir almennir læknar skilji mikilvægi þess að komast sem fyrst að niðurstöðu í þessu máli. Ég hef hvatt alla aðila til þess að leita sátta í þessu máli sem allra fyrst,“ sagði Geir og tók fram að hann hefði kosið samningaleiðina til þess að koma í veg fyrir þá stöðu sem nú sé upp komin sem stefni starfsemi spítalans í uppnám.