Mallar áfram næstu vikurnar

Gosið á Fimmvörðuhálsi er virðist nokkuð stöðugt og báðar sprungurnar vel virkar, að sögn Magnúsar Tuma Guðmundssonar jarðeðlisfræðings, sem telur að gosið haldi áfram að malla næstu vikurnar. „Við sjáum ekkert fyrir endann á þessu," sagði hann við mbl.is.

Um nýju gossprunguna í gærkvöldi segir Magnús Tumi að veikleikar séu í berginu á þessu svæði og gosið hafi nýtt sér það, ef svo má að orði komast. Rifnað hafi útfrá gosrásinni efst.

Magnús Tumi hefur það eftir björgunarsveitarmönnum að hraunið í Hrunárgilinu hafi færst lengra áfram en hraunið úr nýju sprungunni haldi áfram að streyma niður í Hvannárgil. Miklar gufur séu á svæðinu, og mökkurinn meiri en oft áður, en þó ekki upp úr gilinu sjálfu.

Hann ítrekar að erfitt sé að segja til um hvenær eldgosinu lýkur, það geti haldið áfram næstu vikurnar en síðan skyndilega hætt. Spurður hvort jarðskjálftakippirnir í Eyjafjallajökli í dag hafi einhverja sérstaka merkingu segir Magnús Tumi svo ekki vera, þetta sé á svipuðum slóðum og skjálftavirknin hefur verið eftir að gosið hófst, við uppstreymisrás kvikunnar.

Stórhættulegur staður við hraunjaðarinn

„Við höfum aldrei haft svona margar vefmyndavélar af eldgosi áður hér á landi, sem gefa okkur góða mynd af þróuninni úr ýmsum áttum," segir Magnús Tumi og áréttar að áfram sé mikilvægt að ferðafólk við gosstöðvarnar fari varlega. Við virka gosstöð sé hætta vegna skyndilegra breytinga, við háan virkan hraunjaðar sé stórhættulegt að vera. Margir hafi farið þarna glannalega og því sé eðlilegt að stærra öryggissvæði hafi verið afmarkað.

Magnús Tumi Guðmundsson
Magnús Tumi Guðmundsson Rax / Ragnar Axelsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert