Engar merkjanlegar breytingar hafa orðið á gosstöðvunum í kvöld og samkvæmt lögreglunni á Hvolsvelli liggur straumur fólks heim á leið frá Eyjafjallajökli. Byrjaði að fækka fólki á jöklinum um hálftíuleytið en einhverjir verða þó áfram í nótt, auk björgunarsveitarmanna sem vakta svæðið.
Lögreglumenn á Hvolsvelli segja umferðina hafa gengið vel í kvöld og ekkert óhapp orðið, fyrir utan manninn sem fluttur var slasaður á fæti til byggða um áttaleytið í kvöld.
Talið er að vel á annað þúsund manns hafi farið upp að gossprungunum í dag og miðað við veðurspá næstu daga er búist við áframhaldandi straumi fólks á svæðið yfir páskana.
Nánast engin skjálftavirkni hefur verið í Eyjafjallajökli síðan um miðjan dag í dag, þegar nokkrir kippir voru á fjórða tímanum, sá stærsti nærri 3 stig.