Útganga lækna á LSH hefur áhrif

Á Landspítalanum.
Á Landspítalanum. Ómar Óskarsson

Tugir unglækna hættu störfum á Landspítalanum á miðnætti í gærkvöldi vegna deilna um breytingar á vaktafyrirkomulagi. Að sögn Ólafs Baldurssonar framkvæmdastjóra lækninga gæti einhver röskun orðið tímabundið á starfsemi spítalans vegna útgöngu læknanna, en spítalinn muni  nýta ýmis úrræði og öryggi sjúklinga verði tryggt.

Að sögn Ólafs lítur Landspítalinn svo á að aðgerð unglæknanna sé ólögmæt þar sem gagnkvæmur samningur þeirra við LSH sé í fullu gildi og einhliða ákvörðun um að mæta ekki til vinnu sé skýrt brot á kjarasamningi. Læknarnir segja hinsvegar að í nýja vaktakerfinu verði vinnuálagið allt of mikið. Álagið sé óviðunandi fyrir barnafólk í stéttinni, ógn við öryggi sjúklinga og auk þess brot á evrópskri vinnutímalöggjöf.

Ólafur neitar þessu og segir að LSH hafi staðið löglega að breytingunum í alla staði og haft samráð við unglækna um málið frá því í haust. Vaktabreytingarnar séu nauðsynlegar til að bæta samfellu í meðferð sjúklinga og eins efli fyrirkomulagið námstækifæri unglækna.

Hann bendir á að nýja vaktakerfið stytti vinnulotur úr 16 klukkustundum í 13 þannig að þær falli betur að alþjóðlegum tilskipunum um vinnutíma, sem gera ráð fyrir 11 klst. hvíldartíma á sólarhring. Dagvinnustundum unglækna fjölgi lítillega en á móti haldi þeir óskertum launum og komi það til vegna þess að endurskoðun vinnutilhögunar hjá öllum heilbrigðisstéttum, vegna kröfu um niðurskurð, miði að því að aukið hlutfall vinnu á spítalanum fari fram á dagvinnutíma. Í ljósi þeirra stórfelldur niðurskurðaráforma sem LSH stendur frammi fyrir verði að ná fram hagræðingu á spítalanum og þessi vaktabreyting sé liður í því.

 „Aðgerðir unglækna stofna í hættu áralangri uppbyggingu framhaldsmenntunar í læknisfræði á LSH og er ljóst að endurskoða þarf þau mál frá grunni. Ólögleg útganga unglækna úr störfum sínum sýnir einnig að þörf er á gagngerri endurskoðun allra starfa unglækna á LSH."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert