Vísa ávirðingum á bug

Læknar að störfum, myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Læknar að störfum, myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint. Ásdís Ásgeirsdóttir

Félag almennra lækna (FAL) vísar fullyrðingum Landspítalans um ólögmæti vinnustöðvunar almennra lækna rakleitt til föðurhúsanna og ítrekar að nýtt vaktakerfi LSH brýtur lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Ennfremur sé það ógnun við öryggi sjúklinga sem og öryggi starfsmanna LSH, segir í yfirlýsingu FAL. 

„Nýtt kerfi felur í sér fleiri næturvaktir í röð en áður var, skemmri hvíld eftir næturvakt og lengri vinnudag þá daga sem ekki eru teknar næturvaktir. Meðalvinnutími á viku verður hátt í 60 klst en hámark skv. lögum er 48 klst. Núverandi vaktakerfi er innan ramma laganna, hið nýja þverbrýtur þau. Þessi lög eru grundvöllur kjarasamninga og því er um augljóst lögbrot og brot á kjarasamningum að ræða af hálfu framkvæmdastjórnar LSH. Enda mun Læknafélag Íslands höfða mál á hendur LSH verði vaktakerfinu haldið til streitu. Fyrra kerfi brýtur ekki lög um 11 klst lágmarkshvíld og því getur það ekki talist forsenda breytinganna. Þau lög verði hins vegar einnig brotin með nýju kerfi," segir í yfirlýsingu læknanna.

LSH virt mótmæli að vettugi

Félag almennra lækna vísar ennfremur öllu tali um samráð á bug. Félagsmönnum hafi verið gefinn kostur á að mótmæla breytingunni skriflega eða hlíta henni og halda áfram vinnu sinni. Yfirgnæfandi meirihluti félagsmanna hafi mótmælt með bréfi en LSH virt þau að vettugi og haldið breytingunni til streitu.

Hefðbundinn uppsagnarfrestur er liðinn í dag, 1. apríl, er það skoðun félagins sú, studd af lögfræðingi Læknafélags Íslands, að ráðningasamningur læknanna sé fallinn úr gildi. FAL lýsir því allri ábyrgð á hendur LSH fari svo að vanti lækna til vinnu og lítur svo á að LSH hafi þvingað lækna til uppsagnar. Eina ólöglega þvingunaraðgerðin sé þannig hið nýja vaktakerfi.

FAL furðar sig einnig á hótun LSH um niðurskurð á framhaldsmenntun í læknisfræði. Spyr félagið sig hvort menntamálayfirvöld telji LSH þess umkomið að meta hvaða háskólamenntun eigi að bjóða á Íslandi og hverri sé fórnandi.

„Læknaráð LSH hefur lýst yfir þungum áhyggjum af stöðunni. Þá mælist Læknaráð til þess að nýja vaktakerfinu verði frestað og að deiluaðilar vinni tafarlaust saman að lausn málsins til að tryggja öryggi sjúklinga og áframhaldandi góða þjónustu. Félag almennra lækna lýsir sig alfarið til reiðu að taka áskorun Læknaráðs," segir að endingu í yfirlýsingu FAL.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert