Hópur hollenskra grænfriðunga, sem hlekkjaði sig við landfestar flutningaskips í höfninni í Rotterdam, hefur verið handtekinn. Grænfriðungar fullyrtu að 7 gámum með langreyðakjöti frá Íslandi hefði verið skipað um borð skipið og ætti að flytja kjötið til Japans.
Fram kemur á vefsíðu grænfriðunga að fólkið, sem stóð fyrir aðgerðunum í höfninni hafi verið handtekið. Ekki sé ljóst hvað orðið hafi um gámana en lögregla í Rotterdamhöfn sagði fyrr í morgun við hollenska fjölmiðla að öll farmskjöl væru í lagi og því engin ástæða til að hindra för skipsins.
AP fréttastofan hafði í dag eftir talsmönnum grænfriðunga að þeir hefðu hætt aðgerðum eftir að NYK Line skipafélagið hefði fallist á að flytja gámana sjö í land til skoðunar.
AFP fréttastofan segir, að aðgerðirnar hafi hafist klukkan 2:30 að íslenskum tíma við flutningaskipið NYK Orion, sem skráð er í Pamana. Skipið á að leggja úr höfn áleiðis til Japans klukkan 16 að íslenskum tíma í dag.