Nauðsynlegt að fara varlega

Eldurinn vinstra megin er úr nýju sprungunni. Til hægri gýs …
Eldurinn vinstra megin er úr nýju sprungunni. Til hægri gýs gamli gígurinn. Myndin er úr vefmyndavél Mílu á Fimmvörðuhálsi. eldgos.mila.is

Það að enginn aðdragandi var að því að ný gossprunga opnaðist á miðvikudagskvöld gerir það að verkum að menn þurfa að hafa varann á sér varðandi framvindun gossins á Fimmvörðuhálsi. Þetta segir Ármann Höskuldsson jarðeðlisfræðingur.

Ármann var á gossvæðinu í morgun og hann segir engin merki um breytingar á gosinu. Stöðugt gjósi í nýju sprungunni og hraunið renni í Hvannárgil. Lítið hafi slaknað á gosinu í eldri sprungunni. Þar hafi myndast talsvert stór hrauntjörn. Búast megi við að hún bresti fljótlega.

Ármann segir að svona hrauntjörn safnist upp með reglulegu millibili. Síðan bresti hún og þá nái gosstrókarnir nýjum hæðum. Hann segir að þessi hrauntjörn kunni að hafa átt þátt í að ný sprunga opnaðist. Kvikan eigi erfiðar með að komast upp á yfirborðið og leiti þá út á nýjum stað.

Engar breytingar komu fram á mælum áður en nýja sprungan myndaðist. Ármann var sjálfur á svæðinu þegar þetta gerðist og sá þegar sprungan var að myndast. Hann segir ljóst að menn þurfi að fara varlega því óvæntar breytingar geti orðið á gosinu án fyrirvara.

Vindur er að aukast á gossvæðinu og þar er mjög kalt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert