Passíusálmarnir verða lesnir víða í kirkjum í dag, föstudaginn langa. Lesturinn er ýmist í höndum eins eða fleiri og víða er tónlistarflutningur hluti af dagskrá. Píslargöngur verða gengnar á nokkrum stöðum, m.a. kringum Mývatn, frá Valþjófsstöðum að Skriðuklaustri, á Eskifirði og í Laufási í Eyjafirði.
Eyvindur Erlendsson mun hafa skapað þá hefð að lesa Passíusálmana á föstudaginn langa í Hallgrímskirkju á níunda áratug liðinnar aldar og síðan hefur hún skotið rótum víða í kirkjum landsins.
Verðlaunahafar í Stóru upplestrarkeppninni í 7. bekk flytja
Passíusálmana í Hallgrímskirkju. 25 upplesara sem unnið hafa til verðlauna
í upplestrarkeppninni síðastliðin fimm ár í Reykjavík og nágrenni lesa sálmana. Þau elstu unnu til verðlauna vorið
1996 en þau yngstu vorið 2009 og fermast í vor.
„Passíusálmarnir eru eitt mesta listaverk íslenskra bókmennta og verðskulda að vera fluttir árlega. Viðtökur almennings og árlegur flutningur þeirra í útvarpinu á lönguföstu eru til marks um að sálmarnir eiga enn erindi við samtímann ekki síður en á dögum Hallgríms og hefðin er fagur vitnisburður um þá rækt sem við sýnum þessu stórvirki okkar í bókmenntum,“ segir í fréttatilkynningu frá Hallgrímskirkju.
Sr. Hallgrímur var sóknarprestur í Saurbæ frá 1651-1669 eða um 18
ára skeið. Orti hann þar Passíusálmana, en þeir voru fyrst gefnir út
árið 1666. Hafa sálmarnir verið kynslóðunum á Íslandi svo hjartfólgnir
í
gegnum tíðina að sr. Hallgríms hefur oft verið minnst sem prests allrar
þjóðarinnar og hennar mesta trúarskálds.
Nánari upplýsingar um lestur Passíusálma í dag er að finna á vef þjóðkirkjunnar.