Karlmaður var handtekinn á Akureyri í nótt fyrir að vinna skemmdarverk á hraðbanka. Að sögn lögreglu virðist vera sem maðurinn hafi verið eitthvað ósáttur við afgreiðslu hraðbankans og misst stjórn á skapi sínu. Réðst hann á bankann með höggum og spörkum og vann töluverðar skemmdir á honum.
Maðurinn var ölvaður að sögn lögreglu og var látinn sofa úr sér í fangageymslu í nótt. Að reiðikasti hans undanskildu var nóttin tiltölulega róleg hjá lögreglunni á Akureyri.