Búið er að loka gossvæðinu á Fimmvörðuhálsi. Björgunarsveitarmenn hafa í kvöld verið að smala fólki niður af hálsinum, en þar er „vitlaust veður“ að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli. Margt fólk er enn á svæðinu en þar hafa orðið þrjú slys í kvöld.
Mjög hvasst er á Fimmvörðuhálsi, skafrenningur og ofankoma. Skyggni er mjög lítið og eiga bílar björgunarsveitarmanna í erfiðleikum með að komast niður vegna blindhríðar.
Að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli hefur fólk undanfarin daga verið að leggja á Fimmvörðuháls í ljósaskiptunum. Síðustu gestirnir hafa ekki farið af svæðinu fyrr en tvö til þrjú um nóttina. Eitthvað hefur verið um þetta í kvöld þrátt fyrir versnandi veður.
Ekki er vitað um að neinn hafi lent í stórum vandræðum vegna veðurs. „Við erum að smala fólki saman,“ sagði lögreglumaður á Hvolsvelli í samtali við mbl.is í kvöld. Margir björgunarsveitarmenn eru á staðnum, en mikið er að gera hjá þeim.
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra sagði í tilkynningu um kl. 21.40 að slæmt veður sé nú á Mýrdalsjökli og færð farin að þyngjast.
„Ákveðið hefur verið að loka fyrir akstur um jökulinn og beina þeim ökutækjum sem eru við gosstöðvarnar niður að Skógum.
Einnig eru björgunarsveitarmenn og lögregla að aðstoða göngumenn á Fimmvörðuhálsi til byggða.
Þrjú slys hafa orðið á svæðinu í kvöld. Tveir einstaklingar hlutu meiðsli á öxl og var annar fluttur á Hvolsvöll með þyrlu Norðurflugs en hinn með björgunarsveitarbíl úr Þórsmörk einnig á Hvolsvöll.
Nú á tíunda tímanum var þyrla Landhelgisgæslunar kölluð út til að sækja öklabrotin mann í Strákagili sem er á gönguleiðinni á Morinsheiði. Björgunarsveitarmenn og læknir eru á vettvangi og er líðan mannsins góð eftir atvikum.“
Þyrlan var væntanleg á slysstað kl 22.00, að því er sagði í tilkynningunni.