Slysavarnarfélagið Landsbjörg varar við sprungum á Mýrdalsjökli og hvetur þá sem þar eru á ferð að nýta sér upplýsingar um GPS ferla.
Í gær og í dag hafa þeir sem leggja leið sína á Mýrdalsjökul sífellt verið að færa sig utar í þá slóð sem þar hefur myndast. Þetta þýðir að slóðin er komin hættulega nærri sprungusvæði. Þegar hafa komið upp tilvik þar sem farartæki hafa lent í sprungum.
Þeim sem ætla að leggja á Mýrdalsjökul í dag og stefna á gosstöðvarnar er bent að að kynna sér upplýsingar um GPS ferla sem t.d. má finna á vef Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
Talsverður vindstrengur er núna við gosstöðvarnar. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni er norðvestan 8-13 m/s og bjartviðri. Spáð er hvassari og stöku él með kvöldinu.
Frost 6 til 10 stig að deginum. Vindkælistig á bilinu -14 til -22 stig.