Erfitt verk fyrir höndum

Perlan að vinna inni í Landeyjahöfn. Vestmannaeyjar í baksýn.
Perlan að vinna inni í Landeyjahöfn. Vestmannaeyjar í baksýn. Ljósmynd / hsig

Fyrsta skipið hefur siglt inn í Landeyjahöfn. Það er dýpkunarskipið Perla sem vinnur við dýpkun innsiglingarrennunnar og hafnarsvæðisins. Skipstjórinn segir erfitt að vinna við dýpkunina.

„Við erum að reyna að dýpka þarna. Við gátum verið að í sólarhring en urðum að stoppa í gærkvöldi út af veðri,“ segir Óttar Jónsson ,skipstjóri á Perlu. 

Björgun hf. tók að sér dýpkun innsiglingar og hafnar eftir útboð. Gert er ráð fyrir að um 200 þúsund rúmmetrar af sandi verði fluttir út úr höfninni. Efninu er dælt upp í skipið sem siglir út fyrir höfnina og losar það aftur í sjóinn.

Óttar segir að efnið sé á mikilli ferð vegna strauma. Innsiglingarrennan á að vera sjö metra djúp en þar sem hún er grynnst er aðeins þriggja metra dýpi. Þarf því að grafa 4 metra, þar sem mest er. 

Óttar segir að dýpkunin sé afar erfitt verkefni og mikið háð veðri. Ekki megi vera nein hreyfing á sjó. „Ég tel að þetta sé eitt erfiðasta dýpkunarverkefni sem ráðist hefur verið í hér, það er svo mikil hreyfing og erfitt að athafna sig,“ segir Óttar.

Björgun er með verkefni í Vestmannaeyjum sem eitthvað er hægt að grípa í þegar ekki er vinnufriður í Landeyjahöfn. Skipið var þar í nótt en er nú á leiðinni í Landeyjahöfn til að halda áfram verkinu þar. 

„Það er búið að auglýsa fyrstu ferð 1. júlí, þeir ætla að hafa þetta tilbúið þá,“ segir Óttar og gefur ekki meira út á það hvort það takist að opna höfnina á tilsettum tíma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert