Falla frá einhliða Icesave-skilmálum

Bretar og Hollendingar hafa gefið til kynna að þeir séu reiðubúnir til þess að falla frá þeim einhliða skilmálum sem þeir settu Íslendingum, eftir þjóðaratkvæðagreiðslu, fyrir áframhaldandi samningaviðræðum um lausn Icesave-deilunnar.

Líkur eru taldar á því að samningaviðræður hefjist á ný í vikunni eftir páska, enda eru viðmælendur Morgunblaðsins á því að skammur tími sé til stefnu, þar sem væntanlega verði boðað til þingkosninga í Bretlandi alveg á næstunni.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, baðst undan því að fara ofan í einstök atriði samningaviðræðnanna þegar leitað var upplýsinga hjá honum í gærkvöldi. Sagði hann vonir manna standa til þess að fundað yrði í málinu fljótlega eftir páska en tók fram að ekki væri enn búið að tímasetja slíkan fund. Aðspurður sagði hann ljóst að erfiðlegar hefði gengið að fá menn að samningaborðinu eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna og tók fram að það skýrðist af ýmsum þáttum en vildi ekki fara nánar út í þá.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir sjálfsagt og eðlilegt að styðja viðræðuferlið áfram, „enda séu engin einhliða skilyrði uppi af hálfu viðsemjenda okkar. Ég er sáttur við það, að þeir falli frá slíkum skilyrðum, enda kom aldrei til greina að viðræðurnar færu fram undir einhverjum afarkostum.“

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, sagði í gær að það væri mjög jákvætt ef Bretar og Hollendingar hefðu sent skilaboð um að þeir væru reiðubúnir til frekari viðræðna, án einhliða skilmála. Hún telur ekki óhugsandi að fundur utanríkismálanefndar Alþingis með hluta af fjárlaga- og utanríkismálanefndum breska þingsins, hafi skilað árangri. „Við fundum fyrir miklum velvilja hjá bresku utanríkismálanefndinni,“ segir Birgitta.

Sjá nánari fréttir um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert