Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur, segir á bloggsíðu sinni, að tveir jafn líklegir möguleikar sé á því hver framtíð gossins á Fimmvörðuhálsi verði. Annar sé sá að gosinu ljúki fljótt og myndi þá fremur lítið hraun eins og eldri hraungos á hálsinum. Hinn möguleikinn sé, að gosið haldi áfram og hlaði þá upp myndarlegri nýrri dyngju.
„Hraundyngjur eru mjög mikilvæg fyrirbæri í íslenskri jarðfræði, og nægir að benda til dæmis á Skjaldbreið. Einkenni þeirra er að gosið kemur aðallega upp um eina gosrás, og hraun rennur til allra átta til að mynda dyngjuna sem er auðvitað í laginu eins og skjöldur á hvolfi," segir Haraldur.
Hann bætir við, að á sínum tíma, árin 1963 til 1968, hafi því verið haldið fram að Surtsey væri dyngjugos. Reyndar hafi gosið byrjað á stuttri sprungu og fjórir gígar eða litlar eyjar spruttu upp: Surtsey, Syrtlingur, Jólnir og Surtla.
„Ef Surtsey hefði gosið á landi, þá hefði gosið sennilega hlaðið upp dæmigerðri dyngju. Kvikan sem nú gýs á Fimmvörðuhálsi er einmitt mjög lík þeirri sem kom upp í Surtsey. Framhaldið heldur áfram að vera mjög spennandi!" segir Haraldur.
Bloggsíða Haraldar Sigurðssonar