Björgunarsveitarmenn slökuðu slösuðum manni niður í gilið við gönguleiðina um Kattarhryggi í Goðalandi til að hægt væri að hífa hann upp á öðrum stað og koma honum á lendingarstað þyrlu Landhelgisgæslunnar. Maðurinn var hífður með talíum um 90 metra upp úr gilinu.
Í gærkvöldi sinntu björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar aðstoð við slasaða ferðalanga á gönguleiðinni úr Þórsmörk að gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi.
Konu sem slasaðist á öxl var fylgt niður í Bása og ekið þaðan á björgunarbifreið til móts við sjúkrabíl kl. 18:30.
Þá er talið að karlmaður hafi ökklabrotnað neðan við einstígið Kattarhryggi fyrir ofan Bása klukkan 20. Björgunarsveitir sinntu honum á vettvangi og biðu flutnings með aðstoð þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar. Því miður reyndist ekki unnt að hífa manninn um borð vegna þess hve gilið er þröngt og bratt og aðstæður erfiðar fyrir þyrlu, segir í lýsingu björgunarsveitarmanna.
Vegna óvissu um hvort hægt væri að nýta þyrlu í verkefnið höfðu björgunarmenn undirbúið flutningsleið með böndum. Slysið varð á þeim hluta gönguleiðarinnar þar sem aðstæður voru hvað erfiðastar en hálka var á einstiginu utan í mjög brattri hlíð. Að þeim sökum þurfti að slaka manninum niður í gilið áður en hægt var að hífa manninn aftur upp úr gilinu með aðstoð talíukerfis þar sem aðstæður voru betri. Alls var maðurinn hífður upp um 90 metra upp á hrygginn þangað sem hægt var að bera hann upp í þyrluna sem þyrlusveitin hafði náð að lenda á mjóum hryggnum. Þegar klukkan var orðin hálf eitt eftir miðnætti var flogið með manninn af slysstað til Reykjavíkur.
Meðan á þessari aðgerð stóð sinntu aðrir björgunarsveitarmenn aðstoð við konu neðan við Morinsheiði sem hafði einnig slasast á fæti klukkan 21.30. Ekki reyndist heldur unnt að lenda þyrlu á þeim stað eða hífa konuna. Björgunarsveitarmenn báru því konuna áleiðis niður á betri lendingarstað þar sem henni var haldið heitri í tjaldi. Ekki var talið fýsilegt að bera hana niður það einstigi sem Kattarhryggirnir eru enda nægilega hættulegir fullfrísku fólki. Þó var athugað með aðra flutningsleið niður gil í átt að Markarfljóti en það krefst mikils búnaðar sem ekki var á vettvangi.
Landhelgisgæslan kallaði til aðra þyrlu sem fór í það verkefni að sækja konuna. Þá voru einnig með í för svokallaðir undanfarar sem eru sérhæfðir fjallabjörgunarmenn með mikinn búnað til að útbúa aðra flutningsleið niður á láglendi ef ekki hefði verið hægt að lenda á svæðinu heldur aðeins í Básum. Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar tókst að stinga sér niður á hól með nætursjónaukum við erfiðar aðstæður og þangað báru björgunarmenn konuna. Var hún flutt af vettvangi um klukkan þrjú um nóttina.
Föstudagurinn langi varð ansi langur hjá þeim björgunarmönnum sem sinntu aðgerðunum eftir að hafa gengið upp fyrr um daginn og komu ekki niður í Þórsmörk fyrr en klukkan fjögur um nótt. Björgunarmenn voru því hvíldinni fegnir og heitu lambakjöti sem slysavarnadeild kvenna hafði soðið í Básaskála af mesta myndarskap.
Björgunarsveitarmenn telja mildi að ekki hafi orðið alvarlegri slys á ferðamönnum miðað við takmarkaða reynslu og útbúnað einhverra ferðalanga á gossvæðinu undanfarna daga.
Slysavarnarfélagið Landsbjörg vill árétta að fjallaferðir að vetri til eru aðeins á færi þeirra sem reynslu hafa. Ferðalöngum er bent á að klettabrúnir og hengjur geta verið óstöðugar og varasamar og á gönguleiðinni upp frá Básum eru viða einstigi og launhált, það þarf ekki að spyrja að leikslokum ef ferðalangar falla af stígnum þar sem brattast er.