„Okkar ráðgjöf frá því í fyrra stendur algjörlega þangað til við höfum farið yfir nýjar upplýsingar sem úttekt á þessu vori byggist á. Þannig að við gerum ekki ráð fyrir að endurskoða okkar ráðgjöf núna á þessu stigi,“ segir Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar.
Í grein eftir Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, sem birtist í Fréttablaðinu á skírdag, segir hún skort á aflaheimildum í sumar vera áhyggjuefni og að skoða ætti hvort hægt væri að auka aflaheimildir tímabundið til að kljást við þann vanda innan forsvaranlegra marka. Eins og fram hefur komið er kvóti víða í byggðum að klárast en þá tekur við nokkurra mánaða atvinnuleysi hjá mörgu fiskverkafólki.
Að sögn Jóhanns hefst senn árleg úttekt Hafró á ástandi fiskistofnanna, en hún byggist m.a. á nýlegum stofnmælingum botnfiska, svokölluðu togararalli, netaralli á hrygningaslóð sem fram fer eftir páska sem og greiningu á gögnum um aflabrögð á þessu og síðasta ári. Ný úttekt og ráðgjöf Hafró verður síðan kynnt innan tveggja mánaða. „Og mun þá miðast við það fiskveiðiár sem hefst 1. september nk.“
Sjá nánar um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.