Landhelgisgæslunni barst klukkan 20:46 í kvöld beiðni frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra um þyrlu vegna ökklabrotins manns í Strákagili í Þórsmörk. Læknir á staðnum taldi ógerlegt að flytja manninn nema með þyrlu.
Var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út kl. 20:49 og fór TF-Gná frá Reykjavík kl. 21:27 og var komin á slysstað kl. 22.
Þá barst önnur beiðni um þyrlu vegna konu sem hafði snúið ökkla á Heiðarhorni, skammt frá Strákagili. Við könnun á aðstæðum reyndist ekki unnt að hífa fólkið um borð í þyrluna og þurfti því að færa það á staði þar sem hægt væri að taka á móti þyrlunni.
Gná lenti í Þórsmörk og beið á meðan flutningur fór fram. Fór þyrlan að nýju í loftið kl. 23:15 og sótti manninn í Strákagili og flutti hann til Reykjavíkur. Lent var við skýli Landhelgisgæslunnar kl. 00:40 þar sem sjúkrabíll beið og flutti manninn á sjúkrahús. Þá var enn unnið að björgun konunnar á Heiðarhorni en reiknað var með að þyrlan myndi sækja hana síðar í nótt.
Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur verið kölluð út þrisvar sinnum á 28 tímum vegna óhappa í námunda við gossvæðið á Fimmvörðuhálsi. Í gærkvöldi var þyrlan kölluð út vegna manns sem sleit vöðva á fæti. Var hann ekki alvarlega slasaður, en þótti rétt að flytja hann til byggða með þyrlu. Beiðnin um þyrlu Landhelgisgæslunnar var raunar afturkölluð þar sem önnur þyrla á svæðinu, sem hefur flutt ferðamenn að gosstöðvunum, var fengin til að flytja manninn.