Spara aurinn en kasta krónunni

Flugrekendur eru ósáttir við lokun Reykjavíkurflugvallar á morgun.
Flugrekendur eru ósáttir við lokun Reykjavíkurflugvallar á morgun. mbl.is/ÞÖK

Lokun Reykjavíkurflugvallar á morgun kemur sér ákaflega illa fyrir alla sem eru með starfsemi á flugvellinum, fyrir utan áætlunarflugfélögin. „Flugstoðir eru að spara aurinn en kasta krónunni,“ segir Matthías Sveinbjörnsson, sem situr í stjórn Flugmálafélags Íslands.

Flugstoðir ákváðu að loka Reykjavíkurflugvelli á páskadag, í sparnaðarskyni, eins og á jóladag og nýársdag. Ákvörðunin var tekin fyrir rúmu ári. 

Mikið er að gera í fluginu þessa dagana. Flugvélarnar eru í stöðugri útleigu og útsýnisflugi til eldstöðvanna á Fimmvörðuhálsi og eigendur vélanna nota þær sem aldrei fyrr. Það er varla að menn nái að þrífa mesta skítinn af vélunum á milli ferða.

„Flugmálafélagið hefur margoft bent á að þessar lokanir fela í sér lítinn sparnað, ef nokkurn, en þeir sem eru með rekstur tapa peningum. Það dettur heill dagur úr hjá þeim. Morgundagurinn sannar það því miður að viðvaranir okkar voru réttar,“ segir Matthías.

Hann telur að við ákvörðun um lokun hafi eingöngu verið litið til áætlunarflugs sem liggur niðri á páskadag. Aðrir séu með heilmikla starfsemi á vellinum, einmitt á góðvirðisdögum sem þessum. Nefnir hann leiguflug, útsýnisflug, kennsluflug, útleigu flugvéla og fleira.

Fram hefur komið hjá upplýsingafulltrúa Flugstoða að hægt sé að opna flugvöllinn gegn gjaldi. Matthías upplýsir að hver og einn sem notar völlinn þurfi að greiða 78 þúsund krónur. Enginn rekstur standi undir slíku viðbótargjaldi. „Þótt við myndum allir leggja í styrktarsjóð fyrir Flugstoðir dygði það ekki til, því allir sem nota völlinn þurfa að greiða gjaldið,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert