Sprunga á útsýnissvæðinu

Göngufólk er hvatt til að fara varlega í nágrenni eldstöðvarinnar. …
Göngufólk er hvatt til að fara varlega í nágrenni eldstöðvarinnar. Veður getur einnig breyst á augabragði. mbl.is/hag

Breytingar hafa orðið á útsýnissvæðinu í kringum eldstöðina á Fimmvörðuhálsi. Hraun hefur runnið yfir stærra svæði og hefur það brætt snjó og ís. Vatnið hefur skorið sprungu til norð-austurs á rúmlega 600 metra kafla.

Almannavarnir vara fólk við sprungunni. Hún er hættuleg allri umferð á svæðinu. Þeir sem eiga þarna leið um eru hvattir til að sýna aðgát og leita til lögreglu eða björgunarsveita á staðnum ef þörf er á frekari upplýsingum.

Fyrir þá sem ætla í gönguferð um svæðið, hvort sem farið er frá Þórsmörk eða Skógum, þá skiptir miklu máli að vera vel og rétt undirbúin.  Ferðalagið til og frá Skógum tekur 10 til 12 klukkustundir í misjöfnu veðri. 

Á hverjum degi hefur þurft að koma fjölda fólks til aðstoðar á gönguleiðinni sem ekki treysti sér lengra eða var orðið örmagna. 

Gönguleiðin frá Þórsmörk og uppá Morinsheiði er ekki við allra hæfi en víða þarf að fara um einstigi og brattar brekkur.  Nokkuð hefur verið um það að fólk hafi slasast á þeirri leið, sumir illa.  Allar aðstæður til björgunar eru mjög erfiðar á þessu svæði og hefur þurft að leita aðstoðar þyrlu í nokkrum tilvikum til að koma viðkomandi til bjargar.

Enn er ítrekað mikilvægi þess að fólk fari eftir fyrirmælum lögreglu og björgunarsveita á svæðinu og taki tillit til þess að þeir eru þarna til að tryggja öryggi fólks.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka