Gangurinn í eldgosinu á Fimmvörðuhálsi virðist lítið hafa breyst undanfarinn sólarhring. Gosórói hefur verið óbreyttur á jarðskjálftamælum Veðurstofunnar en inn á milli hafa komið hviður. Segir Veðurstofan, að líklega stafi þær af því að hraunið kemst enn í tæri við snjó og við það verða gufusprengingar.
Fáeinir jarðskjálftar hafa orðið undir austurhluta Eyjafjallajökuls en allir innan við 2 að stærð. GPS-mælar á svæðinu sýna litlar breytingar.
Veður á Fimmvörðuhálsi er frekar slæmt, norðan 15 metrar á sekúndu og frost er 9 stig. Spáð er að vind lægi ögn þegar líður á daginn. Nú í morgun hefur verið skafrenningur á Mýrdalsjökli og slæmt skyggni og færð upp á jökulinn frá Sólheimum er þung.
Lögregla verður með vakt við gönguleiðina á Fimmvörðuhálsi upp frá Skógum og verður þeim, sem eru vanbúnir, snúið þar frá. Einnig verður vakt við akstursleiðina upp á Mýrdalsjökul við Sólheima.
Lögreglan segir, að færi upp á jökulinn sé mjög þungt og ekki fyrir aðra en mikið
breytta bíla. Við Sólheima verður þeim snúið frá sem ekki eru nægilega vel búnir
til að eiga erindi á jökulinn.