Sina brennur í Þykkvabænum og sést reykurinn víða að. Ekki er talið að mannvirki séu í hættu.
„Ég sé að það er reykur hérna innfrá, inni á mýrum,“ segir Sigurbjartur Pálsson, íbúi í Þykkvabæ þegar hann var spurður um sinueldinn.
Sinueldurinn er í stóru beitilandi fyrir ofan byggðina. Þar er oft kveikt í sinu. Sigurbjartur segist ekki vita hvort það hafi verið raunin nú.
Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á Hvolsvelli stafar engin hætta af sinueldinum. Slökkvilið var sett í viðbragðsstöðu en ekki var talin ástæða til að slökkva eldinn.
Talið er að bændur eða búfjáreigendur hafi kveikt í sinu án þess að hafa til þess tilskilin leyfi, samkvæmt upplýsingum lögreglu. Málið verði skoðað og fari sína leið.