Umferð farin að þyngjast

Margir hafa lagt leið sína upp á Fimmvörðuháls til að …
Margir hafa lagt leið sína upp á Fimmvörðuháls til að skoða gosið. mbl.is/Árni Sæberg

Að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli er umferðin í átt að gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi farin að þyngjast mikið. Almannavarnir vilja vekja athygli á því að með kvöldinu fari að hvessa af austri og þykkna upp á svæðinu við Eyjafjallajökul, Mýrdalsjökul og í Þórsmörk.

Umferðin hefur verið róleg framan af degi og gengið vel að sögn lögreglu. Nú á fjórða tímanum hafi hins vegar umferðin þyngst til muna.

Á vef almannavarna kemur fram að í nótt muni bæta í vind og snemma í fyrramálið sé reiknað með að vindur verði kominn í 15-18 metra á sekúndu með snjókomu. Veður eigi svo að versna enn þegar líði á morgundaginn. Hafa beri í huga að veður geti breyst mjög snögglega á fjöllum og gjarnan orðið mun verra en spáð sé.

Á undanförnum dögum hafi það sýnt sig að ekki þurfi mikinn vind til að færð á Mýrdalsjökli spillist fljótt. Nú sé talið að færð þar henti ekki bílum á minni dekkjum en 38 tommum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert