Engir ferðamenn eru nú á ferli á Fimmvörðuhálsi þar sem óveður geisar. Björgunarsveitarmenn eru nú á tveimur bílum á hálsinum en ætla að fikra sig niður til að kanna gönguleiðina. Settir verða upp póstar við gönguleiðina frá Skógum og á Sólheimajökli til að tryggja að fólk fari ekki upp í óveðrið.
Veður er nú að versna á Fimmvörðuhálsi, vindur fer vaxandi og skyggni að versna.
Einn breskur ferðamaður dvelur í góðu yfirlæti í skála Útivistar á Fimmvörðuhálsi. Hann er vel búinn og væsir ekki um hann, að sögn stjórnstöðvar Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu. Bretinn ætlar að ganga niður á morgun þegar veður hefur batnað.
Í Þórsmörk eru einnig björgunarsveitarmenn við eftirlit. Nú í morgun voru alls um 15 björgunarsveitarmenn við eftirlit við gosstöðvarnar og í stjórnstöð.