Mun Íslandi takast það ómögulega, að útiloka kynlífsiðnaðinn? Þetta er meðal þess sem dálkahöfundur breska blaðsins The Guardian fjallar um í pistli sínum sem hún byggir m.a. á viðtölum við Guðrúnu Jónsdóttur hjá Stígamótum og Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrrverandi þingkonu. Julie Bindel skrifar að Ísland sé að verða höfuðstaður femínismans. „Þrátt fyrir að telja aðeins 320 þúsund íbúa er Ísland við það að takast það ómögulega, að útloka kynlífsiðnaðinn.“
Á meðan kvenfrelsishreyfingin í Bretlandi berst fyrir því að reglur verði settar um súludansstaði hefur Ísland sett lög sem banna starfsemi þeirra. Súludansstöðum hefur að sögn Bindel fjölgað gríðarlega hratt undanfarinn áratug.
„Jafnvel enn merkilegra er að þetta litla norræna land er fyrsta landið í heiminum sem bannar kjöltudans út frá femínískum sjónarmiðum en ekki trúarlegum.“
Fréttirnar af nektardansbanninu á Íslandi eru eins og vítamínsprauta fyrir femínista um heim allan, skrifar Bindel. „Þetta sýnir okkur að þegar heil þjóð sameinast að baki ákveðinni hugmynd er allt mögulegt.“
Dálkahöfundurinn veltir fyrir sér hvernig tekist hafi að ná breiðri samstöðu um bann við nektardansi. „Í fyrsta lagi er sterk kvennahreyfing á Íslandi og hátt hlutfall kvenna í stjórnmálum,“ skrifar Bindel. Þá eigi forsætisráðherrann, Jóhanna Sigurðardóttir, þátt í sigrinum en hún hafi lagt baráttu gegn nauðgunum og öðru kynbundnu ofbeldi lið.