Jón Böðvarsson er látinn

Jón Böðvarsson andaðist í gær á Landspítalanum.
Jón Böðvarsson andaðist í gær á Landspítalanum. Kristinn Ingvarsson

Jón Böðvarsson, fyrrverandi skólameistari og ritstjóri Iðnsögu Íslendinga, andaðist í gær á Landspítalanum á 80. aldursári. Jón var fæddur í Reykjavík 2. maí 1930. Hann var kennari mestan hluta starfsævi sinnar og átti mikinn þátt í að endurvekja áhuga almennings á íslenskum fornritum. 

Jón Böðvarsson lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1951. Hann nam íslensku við Háskóla Íslands og lauk cand.mag prófi 1964 og prófi í uppeldis- og kennslufræðum frá sama skóla 1973. 

Jón kenndi við ýmsa gagnfræðaskóla og framhaldsskóla, einnig á námskeiðum fyrir kennara og leiðsögumenn og var skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja frá stofnun hans 1976 til ársins 1984. Hann var ritstjóri Iðnsögu Íslendinga frá 1985 til 1996. 

Jón hélt fjölsótta fyrirlestra og námskeið um íslensk fornrit, einkum Íslendingasögur, á vegum Mímis-Tómstundaskólans og Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands. Þá var hann fararstjóri  um söguslóðir Íslendingasagna og fornar Íslendingaslóðir innanlands og utan. 

Á yngri árum var Jón mjög virkur í pólitísku starfi og var m.a. starfsmaður Æskulýðsfylkingarinnar og Sameiningarflokks alþýðu - Sósíalistaflokksins 1955-56 og var forseti Æskulýðsfylkingarinnar 1956-58. Í miðstjórn og framkvæmdanefnd Sósíalistaflokksins 1962-64.

Jón gegndi einnig fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir samtök kennara og á sviði menntamála. Eftir hann liggja kennslubækur, handbækur og ljóðabók auk þess sem hann bjó fornsögur til skólaútgáfu. Viðtalsbók Guðrúnar Guðlaugsdóttur við Jón, Sá á skjöld hvítan, kom út í fyrra.

Jón var fyrsti heiðursfélagi Skólameistarafélags Íslands 1979, hann var Paul Harris féagi í Rotaryklúbbi Breiðholts 1993 og var sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu 1994 fyrir fræðslustörf og þátt í að endurvekja almennan áhuga á íslenskum fornritum.  

Jón kvæntist Guðrúnu Erlu Björgvinsdóttur, kennara og fyrrum aðstoðarskólastjóra, sonur þeirra er Böðvar Jónsson framkvæmdastjóri og formaður bæjarráðs í Reykjanesbæ.  Stjúpsonur Jóns er Björgvin Jónsson, hæstarréttarlögmaður og skákmeistari. Börn Jóns með Vilhelmínu Sigríði Vilhjálmsdóttur eru Sigríður, kennari og rekstrarfræðingur, og Ásthildur tækniteiknari.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert