Lausn fundin í læknadeilu

Landspítalinn
Landspítalinn mbl.is

Samkomulag náðist í deilu almennra lækna og Landspítalans á fundi sem lauk rétt fyrir kl. 18 í kvöld. Að sögn Björns Zoega, forstjóra spítalans, munu almennu læknarnir sem hættu störfum um síðustu mánaðamót snúa aftur til vinnu þegar í kvöld. 

Hátt á sjöunda tug almennra lækna létu af störfum sl. mánaðamót vegna óánægju með nýtt vaktaplan sem tók gildi 1. apríl. Fulltrúar Félags almennra lækna lögðu þegar í stað til að innleiðingu vaktaplansins yrði frestað og komið á mót nefnd sem hefði það að markmiði að smíða nýtt vaktaplan sem mætti markmiðum spítalans samtímis því sem það stæðist lög um hámarksvinnutíma á viku. 

Í samtali við mbl.is segir Björn að samkomulag deiluaðila feli í sér að reynt verði að finna sameiginlega lausn á málinu. „Að hluta til innleiðingu nýja vaktakerfisins frestað og að hluta verður komið á tilraunatímabili,“ segir Björn. Spurður hversu langan tíma menn ætli sér til að semja nýtt vaktaplan sem hugnist báðum aðilum segir Björn að frestur sé gefinn til 15. ágúst nk. 

Hvorki náðist í Hjördísi Þóreyju Þorgeirsdóttur, formanns Félags almennra lækna, né Gunnar Thorarensen, talsmann félagsins í deilunni, við vinnslu fréttarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert