Meta áframhald björgunarstarfs

Um 40-50 björgunarsveitarmenn hafa vaktað gossvæðið undanfarna daga.
Um 40-50 björgunarsveitarmenn hafa vaktað gossvæðið undanfarna daga. mbl.is/Rax

Sýslumaðurinn á Hvolsvelli fundar núna klukkan fimm með fulltrúum frá svæðisstjórn Slysavarnafélagsins Landsbjargar á svæði 16, og lögreglunni þar sem farið verður yfir öryggismál á gossvæðinu á Fimmvörðuhálsi og ákvörðun tekin um áframhaldandi vöktunar- og björgunarstarf á svæðinu. Næsti fundur verður sennilega um og eftir næstu helgi.

Að sögn Svans Sævars Lárussonar, formanns Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu, hafa á bilinu 40-50 björgunarsveitarmenn verið að störfum á gossvæðinu daglega frá því að gosið hófst aðfaranótt 21. mars sl. 

„Stjórnunin á starfinu hefur farið fram hérna í héraði, annars vegar á aðgerðarstjórnstöðvunum hér á Hellu og hins vegar á vettvangsstöðvum sem eru á Hvolsvelli, Vík og Kirkjubæjarklaustri. En mannskapurinn hefur að vel mestu leyti verið frá öðrum svæðum, allt norðan úr Skagafirði,“ segir Svanur og tekur fram að stór hluti björgunarsveitanna á landinu hafa lagt til mannskap.

Spurður hvort björgunarsveitirnar muni halda áfram að vera á stanslausri vakt við eldgosið þar til yfir lýkur til þess að koma í veg fyrir að vanbúið fólk fari sér að voða segist Svanur ekki búast við því.

„Það er alveg ljóst að þó það muni gjósa á Fimmvörðuhálsi í þrjú ár þá yrði gæslan ekkert í líkingu við það sem verið hefur síðustu daga,“ segir Svanur og bætir við:

„Flestir sem ætla sér að fara og sjá þetta búnir að fara á staðinn. Þannig að fljótlega verður þetta bara eins og Gullfoss og Geysir, þ.e. það verður ákveðinn ferðamannastraumur og þá bara tekið á því ef það kemur eitthvað upp í einstöku tilfelli. Það er ekki hægt að vakta þetta í mörg ár,“ segir Svanur.

Spurður hvort ekki þurfi samt eitthvert vöktunarstarf á svæðinu bendir Svanur á að það yrði aldrei í líkingu við það sem er búið að vera.

„Ég held við getum öll sagt okkur það sjálf að ásóknin verður aldrei í þessu magni til lengri tíma, þ.e. mörg þúsund manns að leggja leið sína á gossvæðið á hverjum degi,“ segir Svanur og bendir á að Landmannalaugar hafi mikið aðdráttarafl en þar er engin gæsla eða skipulagt vöktunarstarf. „Það svæði er jafn hættulegt hálendislega séð þó veður séu mest óútreiknanleg á Fimmvörðuhálsi þó víða væri leitað á landinu.“





mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert