Þreifingar hafa verið í gangi í dag á milli fulltrúa almennra lækna og stjórnenda Landspítalans. Á sjötta tug almennra lækna hættu störfum 1. apríl sl. vegna óánægju með nýtt vaktaplan þar sem þeir töldu það ekki standast ákvæði vinnulöggjafarinnar um hámarksvinnutíma.
Í samtali við mbl.is sagði Gunnar Thorarensen, stjórnarmaður í Félagi almennra lækna (FAL) og talsmaður félagsins í yfirstandandi deilu, of snemmt að segja til um hvort líklegt væri að deilan myndi leysast í dag.
Sagði hann félagið hafa fengið formlegt svar við sáttatilboði því sem lagt var fram sl. miðvikudag og m.a. fól í sér að innleiðingu nýja vaktaplansins yrði frestað á meðan deiluaðila semdu nýtt vaktaplan sem mætti bæði markmiðum spítalans og virti lög um hámarksvinnutíma.
„Við höfum fengið viðbrögð og það hafa gengið tilboð eða hugmyndir milli manna,“ sagði Gunnar og tók fram að þreifingarnar væru á viðkvæmu stigi og því lítið meira að segja um þær á núverandi tímapunkti.
Á Landspítalanum starfa alls á fimmta hundrað læknar. Yfir páskahelgina hefur bráðaþjónustu aðallega verið sinnt en eftir helgi hefst ýmis önnur starfsemi að nýju, s.s. rannsóknir, skurðaðgerðir og ýmis konar meðferðir. Verði deilan um nýja vaktaplanið ekki leyst á þeim tímapunkti má ljóst vera að vinnuálag mun aukast mikið á þeim læknum sem eftir eru og mögulegt er að fresta gæti þurft þeim aðgerðum og innlögnum sem hægt er að fresta.