Sjónvarpstökulið bresku þáttanna Top Gear er væntanlegt til landsins þar sem það hyggjast skoða eldgosið á Fimmvörðuhálsi í sérútbúnum bílum frá Arctic Trucks.
Að sögn Emils Grímssonar, stjórnarformanns Arctic Trucks, verður það væntanlega annað hvort þáttastjórnandinn James May eða Richard Hammond ásamt átta manna tökuliði sem kemur til landsins. Vildi hann ekkert gefa upp um hvenær tökuliðið væri væntanlegt þar sem sjónvarpsfólkið vildi fá að vinna efni sitt í friði.
„Þeir stefna að því að koma hingað og skoða eldgosið og gera eitthvað skemmtilegt eins og þeirra er von og vísa í kringum það,“ segir Emil.
Aðspurður segist hann gera ráð fyrir að tökuliðið þurfi tvo daga við ákjósanleg veðurskilyrði til þess að taka upp efnið, en ekki er verið að taka upp heilan þátt heldur innskot sem sýnt verður í þætti.
„Við þekkjumst frá því að við fórum saman á Norðurpólinn árið 2007, þar sem ég held að við höfum staðið okkur mjög vel. Í framhaldi af því hafa skapast ágætis tengsl okkar á milli,“ segir Emil um tengsl Arctic Trucks við Top Gear, en þá var gerður sérstakur þáttur undir heitinu Polar Special.
Spurður hvaða þýðingu það hafi fyrir fyrirtækið að Top Gear skuli velja þá aftur til samstarfs segir Emil ljóst að það hafi mikið auglýsingagildi á alþjóðavettvangi. „Miðað við það að við erum farin að vinna á alþjóðlegum markaði þá getur það haft gríðarlega mikla þýðingu að fá kynningu á borð við þessa,“ segir Emil og tekur fram að vörumerkið hafi fengið mikla kynningu þegar þeir fóru með Top Gear á Norðurpólinn.