Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir engar ákvarðanir hafa verið teknar um fundahöld í Icesave-málinu, með Bretum og Hollendingum. Ekkert hafi breyst í þeirri stöðu frá því fyrir páska.
Steingrímur vill þó ekki slá því föstu að kyrrstaða verði í málinu fram yfir þingkosningarnar í Bretlandi 6. maí næstkomandi, þar sem enn er mánuður í þær.
Hins vegar sé það viðtekið í breska stjórnkerfinu að svona hluti fái að bíða fram yfir kosningar, ef þeir eru enn óleystir þegar mjög er farið að styttast í kosningar. Enn geti þó verið einhverra daga eða vikna gluggi þar sem eitthvað gæti gerst.
Alþjóðlega greiningarfyrirtækið Moody's tilkynnti í morgun að það hefði breytt horfum fyrir lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins, Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur, úr stöðugum í neikvæðar, aðallega vegna óvissunnar um Icesve-málið.