Ungum frönskum ferðamanni sem barði að dyrum í Húsadal í Þórsmörk í gærkvöldi, gegnblautur og kaldur eftir að hafa vaðið Markarfljót, virðist ekki hafa orðið misdægurt af volkinu, að sögn Ragnheiðar Hauksdóttur, staðarhaldara.
„Næturgesturinn er vaknaður. Það er allt í fína lagi með hann,“ sagði Ragnheiður. Ferðamaðurinn, sem er rétt rúmlega tvítugur, var búinn að labba fram á klappir til að sjá eldgosið á Fimmvörðuhálsi í morgun en þá var ekkert skyggni að gosstöðvunum.
Ragnheiður sagði að þau í Húsadal ætli að aka manninum niður á Hvolsvöll síðar í dag. Þau vilja ekki að hann fari á flandur á svæðinu, enda stendur þar leit yfir.
Maðurinn bankaði upp á í Húsadal um 15 til 20 mínútum eftir klukkan níu í gærkvöldi. Hann var þá gegnblautur og orðinn mjög kaldur eftir að hafa vaðið yfir Markarfljót. Ragnheiður telur það mikla mildi að maðurinn rataði á vað yfir fljótið.
„Það hafði farið héðan jeppi einum til tveimur tímum áður og yfir Markarfljótið. Maðurinn hefur séð förin og álpast ofan í rétt vað. Það hefur verið honum til happs,“ sagði Ragnheiður. Hún sagði að víðast annars staðar væru miklar rastir í fljótinu.
Hún sagði að ferðamaðurinn sé ekki mikill fyrir mann að sjá, lágvaxinn og mjög grannur. Henni þykir ótrúlegt að hann skyldi hafa þetta af en um kílómeter er frá vaðinu að Húsadal. Nístingskuldi var í gærkvöldi.
„Það var ekki þurr þráður á honum. Hann var orðinn svo kaldur strákgreyið og svo stífur í kjálkunum að hann gat varla tjáð sig,“ sagði Ragnheiður.
„Við létum hann fá þurr föt og gáfum honum heitt að borða og sinntum honum. Þetta er ungur strákur og hraustur. Hann sofnaði fljótt og honum virðist ekki hafa orðið meint af volkinu.“
Maðurinn kom hingað í þriggja vikna ferð og ætlaði hringinn í kringum landið einn síns liðs. Hann ákvað að sjá eldgosið og fékk líklega far inn að Þórólfsfelli. Þaðan gekk hann inn eftir og í átt að eldgosinu. Sá sem kom á jeppanum frá Húsadal í gærkvöldi sá manninn ásamt tveimur öðrum á gangi. Maðurinn veit ekkert um ferðir hinna tveggja.
Maðurinn var ágætlega klæddur en einungis með lítill dagpoka með sér. Hann ætlaði að halda för sinni áfram að gosstöðvunum í morgun en var sagt að það gengi ekki við núverandi aðstæður.
Ragnheiður sagði alls óvíst að maðurinn hefði rambað á húsaskjól ef ekki hefðu verið kveikt ljós í Húsadal.