Samningur um stækkun golfvallar samþykktur

Golfvöllurinn á Korpúlfsstöðum.
Golfvöllurinn á Korpúlfsstöðum. mbl.is/Einar Falur

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti í dag með 8 atkvæðum gegn 6 að staðfesta samning milli Reykjavíkurborgar og Golfklúbbs Reykjavíkur um stækkun golfvallarins á Korpúlfsstöðum um 9 holur.

Harðar deilur voru um málið milli borgarfulltrúa meirihluta og minnihlutan borgarstjórnar. Gagnrýndu fulltrúar minnihlutans að leggja ætti  230 milljónir króna í þetta verkefni á sama tíma og skorið væri niður á öðrum sviðum.

Fulltrúar meirihlutans sögðu hins vegar að að verið væri að efna  samning um stækkun golfvallarins sem gerður var í apríl 2006 af  þáverandi borgarstjóra R-listans. 

Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi bókun við afgreiðslu málsins í dag:

„Í tillögu borgarstjóra felst að leggja fram 230 milljónir króna úr borgarsjóði í nýjan golfvöll. Það getur Samfylkingin ekki stutt á sama tíma og laun og þjónusta hefur verið skert og þrengt mjög að mikilvægri starfsemi í allri borginni. Samningar við íþróttafélög hafa þar ekki verið undanskildir og mörg brýn verkefni sem verða að bíða. Golf er góð íþrótt sem margir hafa áhuga á en það er ekki hægt að ætlast til þess að borgarbúar, foreldrar, starfsfólk og önnur íþróttafélög sætti sig við erfiðan sparnað og áframhaldandi aðhald þegar borgarstjóri snarar fram 230 milljónum í golfvöll.“

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu einnig fram bókun þar sem sagði m.a. að að samninginn megi rekja til vorsins 2006 þegar Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þáverandi borgarstjóri Samfylkingarinnar, undirritaði skuldbindandi samninga við fjölmörg íþróttafélög uppá 2,2 milljarða króna, þar á meðal um styrk Reykjavíkurborgar til GR til stækkunar golfvallar á Korpúlfsstöðum.

„Með samkomulaginu er fallið frá fyrri uppbyggingaráformum samkvæmt samningi frá árinu 2007 en í samræmi við hann óskaði GR eftir styrk frá borgaryfirvöldum til stækkunar Korpúlfsstaðavallar og til uppbyggingar æfingaaðstöðu við Bása og við Grafarholtsvöll, alls að upphæð 450 mkr. Með þeim samningi sem nú hefur verið samþykktur í borgarráði fellur félagið frá fyrri áformum en stækkun verður framkvæmd á Korpúlfsstaðavellinum samkvæmt upphaflegum samningi frá 3. apríl 2006. Mun borgin styrkja félagið vegna þeirrar framkvæmdar á fjórum árum og á móti skilar GR Reykjavíkurborg verðmætu landi í Staðarhverfi, sem verður til framtíðar verðmætt byggingarland borgarinnar," segir síðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka